*
*

Almennt um svæðið

Frekari upplýsingar um svæðið

Costa Blanca

  • Costa Blanca svæðið er frábært hvort sem er til heilsársdvalar eða sumarveru. Milt og temprað loftslag auk heilsusamlegrar uppgufunar úr hinum vinsælu saltvötnum hefur frábær áhrif á líkama og sál. Með 300 sólardaga á ári og meðalhitastig um 18° til 20° er erfitt að njóta ekki lífsins í landi Flamenco, rauðvíns og osta.

  • Torrevieja er stærsti þéttbýliskjarninn á syðsta hluta Costa Blanca, borg sem Íslendingar eru vel kunnugir. Enda eiga samskipti okkar við borgina langa sögu, eða allt frá um miðbik 18. aldar þegar frönsku duggararnir sigldu þaðan á Íslandsmið með skip sín full af salti. Það verður enginn svikinn af að kynnast matarmenningu og listalífi borgarinnar og mælum við sérstaklega með að bregða sér þangað í bæjarferð þegar að Maí hátíðin „La feria de mayo“ stendur yfir.

  • Þekktustu strendurnar á svæðinu heita Playa Flamenca, Campoamor, La Zenia og Cabo Roig. En auk sólar, strandlífs og golfs er marga áhugaverða staði að skoða, frægar byggingar, sögulega minnisvarða og söfn. Það er ekki að undra að vinsældir Costa Blanca aukist jafnt og þétt með hverju árinu.

Costa Cálida

  • Costa Cálida eða „hlýja ströndin“ er strandlengja hins rómaða Murcia héraðs, þar sem fjölmargar náttúruperlur og friðuð svæði leynast. Mörg falleg svæði er þar að finna, s.s. Mar Menor eða „litla hafið“ sem er lítið innhaf við Miðjarðarhafið þar sem má finna mikið fugla-, sjávarlíf og fjölbreytta náttúru. Hitastig Mar Menor er að jafnaði 2° til 4° heitara en Miðjarðarhafið og því vinsælt til ýmiss konar vatnaíþrótta allan ársins hring s.s. kanóferðir, siglingar, sjóskíði og köfun svo eitthvað sé nefnt.

  • En La Manga eða „ermin“ er einmitt rifið sem að skilur Mar Menor að frá Miðjarðarhafinu. Rifið liggur frá fiskibænum Cabo de Palos til saltslétta San Pedro del Pinatar bæjarins. Í einungis 20 km fjarlægð er borgin Cartagena þar sem höfuðstöðvar spænska sjóhersins eru. Þar er jafnframt að finna forna höfn sem var reist af Karþagóum árið 221 fyrir Krist. Auk þess eru þar rústir Rómversks leikhúss, fornleifasöfn, veitingahús, glæsilegt tónlistarhús og í raun allt sem hugurinn girnist. Inn af Cartagena, í sveitum Murcia héraðs, má svo finna litla fallega bæi og þorp.

  • Höfuðborg héraðsins, Murcia liggur 70 km frá La Manga svæðinu, en borgin var stofnuð árið 825 af arabískum höfðingja og er því gömul borg sem hefur að geyma ýmsar fornminjar sem t.d. er hægt að skoða í Fornminjasafninu. Auk þess sem Listasafnið, La Huerta garðurinn og Dómkirkjan eru ómissandi staðir til að skoða í borginni.

  • Þeir sem velja frekar að stunda golf íþróttina, hafa úr nógu að velja, því fjöldinn allur af hágæða æfingavöllum og stórglæsilegum keppnisvöllum eru rétt við hendina. Auk þess sem sem skíðabrekkur Sierra Nevada, Granada, eru í einungis 3 ½ klst fjarlægð frá strandlengju La Manga.

  • Og síðast en ekki síst má nefna það að alþjóðaflugvöllurinn í Corvera er í einungis 15 mínútna fjarlægð frá Murcia borg.

Murcia

  • Murcia hérað skiptist í tvö ólík svæði: La Huerta, sem er ræktunarsvæðið og stendur í kringum árbakka árinnar Segura, og svo sveitin, sem er þurrt landsvæði sem teygir sig í norð-vestur, norð-austur og suður. Meðalhæð yfir sjávarmáli er aðeins 43 metrar. Þótt að héraðið sé lítið að flatarmáli, þá er það sennilega með hvað fjölbreyttustu ræktun allra héraða á Spáni.

  • Murcia borg er mjög vinaleg og skemmtilega nútímaleg, þótt hún hafi viðhaldið arfleifð sinni. Hún nær yfir rúmlega 881 ferkílómetra þar sem búa tæplega 45% þeirra 1,5 milljóna manns sem búa í héraðinu. Borgin var stofnuð árið 825 af Abderrahman II, arabískum höfðingja frá Cordóba en á þeim tíma bjuggu í héraðinu fólk af ólíkum þjóðarbrotum s.s. Márar, Egyptar, Kristnir menn og Gyðingar. Á 12. og 13 öld var Murcia ein mikilvægasta borg múhameðstrúarmanna í vestri. Márarnir fullkomnuðu áveitukerfið sem Rómverjar höfðu komið upp og byggðu upp alla þá ræktun sem á sér stað enn þann dag í dag. Ein mikilvægasta bygging borgarinnar er Dómkirkjan, sem byggð var á árunum 1394 – 1462.

  • Eitt aðal aðdráttarafl Murcia héraðs í dag er 250 km strandlengjan Costa Calida. Þar er hægt að stunda ýmiss konar vatnaíþróttir allan ársins hring s.s. siglingar, sjóskíði og köfun svo eitthvað sé nefnt, og fallegir neðarsjávarhellar t.d. sunnan við bæinn Cabo de Palos.

  • Eins er áhugavert að heimsækja borgina Cartagena og skoða Þjóðminjasafn neðansjávarfornleifafræði nú eða fyrir náttúruunnendur að skoða fjölbreytt landslag héraðsins og óspillta dali s.s. Sierra de Espuña, Sierra de la Pila, Carrascoy og El Valle.

  • Murcia er hérað þar sem saga, menning og náttúra fylgjast að, með hreinum fallegum ströndum og áhugaverðu mannlífi

Alicante

  • Alicante borg er á Costa Blanca ströndinni og er íbúafjöldi borgarinnar um 335.000 manns. Alicante er fimmta stærsta héraðið á Spáni (reiknað í GDP) á eftir Madrid, Barcelona, Valencia og Sevilla, og virkilega þess verðug að sækja heim, enda margt áhugavert að finna í þessari fallegu borg.

  • Í Alicante borg fara gamli og nýi tíminn saman þar sem nútímaleg borgin er byggð á gömlum grunni, en finna má ummerki um sögu borgarinnar allt frá þriðju öld fyrir krist. Alicante er í dag ekki síst fyrsta flokks ferðamannastaður sem býður upp á frábærar strandlengjur, glæsilega hafnaraðstöðu, milt veðurfar og fjölbreytta afþreyingu.

  • Margar merkar byggingar má finna í borginni, þar á meðal Gavina höllina sem nú hýsir Héraðslistasafnið með málverkum frá nítjándu öld. Nokkur leikhús eru í Alicante, en aðal leikhúsið er frá 1847 og er það gott dæmi um byggingarstíl borgarinnar. Frá Santa Bárbara kastalanum er stórfenglegt útsýni yfir Postage ströndina, höfnina og borgina sjálfa. Minjar sem fundist hafa benda til þess að fyrsti kastalinn hafi verið byggður þarna á tímum Máranna. Kirkjur og klaustur eru jafnframt áhugaverðir staðir til að skoða til að kynna sér stíl og sögu borgarinnar. En auk þess er mörg áhugaverð söfn að finna í borginni, s.s. Fornleifasafnið ARQ, Lucentum fornleifasafnið og Asegurada Museum sem er samtímalistasafn sem hefur að geyma gullmola eftir t.d. Miró, Dalí og Picasso.

  • Þess á milli er margt hægt að gera sér til dægrastyttingar, rölta um fjölda almenningsgarða, drekka í sig menningu heimamanna á sólríkum torgum, og njóta mikils úrvals veitingastaða og kaffihúsa sem víðsvegar er að finna.

Elche

  • Elche eða „Elx“ er eina af þremur stærstu borgum Valencia í nálægð við strandlengju Costa Blanca. Svæði borgarinnar, Bajo Vinalogo er kennt við ána Vinalogo sem rennur í gegnum borgina og skiptir henni í tvennt og gefur henni skemmtilegt yfirbragð. Um 190.000 manns búa í borginni og eru ferðaiðnaður og skóframleiðsla megin atvinnuvegur þeirra. Mjög gróðusælt er á svæðinu og helsta landbúnaðarræktun döðlur, ólífur, korn og granat epli.

  • Yfir 2000 ára saga Elche hefur arfleitt Spán ríkulega að minjum og bera söfn borgarinnar þess vott. Tákn borgarinnar er án efa „La Dama de Elche“ sem er um 2.400 ára gömul brjóstmynd af konu með leyndardómsfullt augnaráð sem fannst árið 1897. Þessi brjóstmynd telst með merkasta menningararfi Iberíu, og er hún varðveitt af jarðfræðisafni Madrid borgar. Margar minjar frá menningu Mára, Rómverja og Iberíufólks eru að finna á söfnum borgarinnar.

  • Í Elche er stærsti pálmalundur í Evrópu, en þar eru skráð 200.000 pálmatré og var lundurinn verndaður af UNESCO árið 2000. Í borginni er gamalt dramatíkt leikhúsverk sýnt í kirkjunni Basilica de Santa maria í ágúst ár hvert. Þetta er mikill og merkilegur menningarviðburður sem heitir Misteri d‘ Elche. Verkið var skrifað á miðöldum og fjallar um trúna og lífsbaráttu fólksins á svæðinu. Það er merkilegt fyrir efnistök og sviðsetninu, því fá leikhúsverk hafa lifað af frá miðöldum sem eru nálægt upprunalegri útgáfu í uppsetningu. „Misteri d‘Elche“ var útnefnt sem heimsatburður af UNESCO. Auk þess má bæta við að Elche er háskólaborg og ber háskólinn nafn hins fræga leikrita- og ljóðskálds Orihuela borgar, Miguel Hernández.

Orihuela

  • Orihuela borg hóf að myndast á tímum Rómverja, sem að kölluðu hana Orcelis, og er hún í dag gjarnan kölluð höfuðborg Vega Baja svæðisins þar sem hún er staðsett um 20 kílómetra frá strandlengju Costa Blanca. Áin Segura klýfur borgina í tvennt sem gefur henni sjarmerandi blæ og eru íbúar Orihuela 77.000 sem gerir hana þægilega að stærð. Í henni er að finna alla þá þjónustu sem hægt er að hugsa sér, ásamt því að vera mátulega lítil til þess að geta slakað á og notið tilverunnar í rólegu umhverfi.

  • Mikill landbúnaður er stundaður í útjaðri borgarinnar og nærsveitum þar sem helst eru ræktaðar appelsínur, sítrónur, möndlur og ólífur auk ýmiss grænmetis. Útimarkaðir með ferska matvöru eru að sjálfsögðu daglegt brauð og daglegt líf fer mikið fram á götum úti eins og dæmigert er fyrir Spánverja.

  • Borgin er í senn forn og söguþekkt. Merkustu byggingar hennar eru án efa Dómkirkjan, Barrok kirkjan og arabískar hallir með turnum sem rekja má til Máranna. Í borginni eru yfir 10 kirkjur og borgin þekkt fyrir mikla trúariðkun, en í fjallshlíð borgarinnar er t.d. að finna menntasetur fyrir presta.

  • Eitt af frægari ljóða og leikritaskáldum Spánar, Miguel Gilbert Hernández, fæddist í Orihuela og er háskólinn í Orihuela, sem og í Elche borg, nefndir í höfuðið á honum. En þrátt fyrir að Hernández hafi látist einungis 32 ára að aldri sem fangi Falangista, markaði hann á stuttri ævi sinni djúp spor í spænska bókmenntasögu.

  • Hátíð Mára og Kristinna manna er haldin í júlí ár hvert og er hún ein af glæsilegri hátíðum borgarinnar og þessi virði að taka þátt í.

  • Hvort sem maður vill iðka trú, borða góðan mat, fara á listviðburði eða njóta útiveru er Orihuela dásamleg borg til að njóta lífsins.

Orihuela Costa

  • Orihuela Costa er landsvæði sem tilheyrir borginni Orihuela og liggur við strandlengju suður hluta Costa Blanca. Strandlengjan er 16 km löng og í 20 km fjarlægð frá borginni. Mörg falleg hverfi eru á svæði Orihuela Costa auk glæsilegra golfvalla s.s. Villamartin, Las Ramblas, Campoamor og Las Colinas.

  • Helstu strandir hafa nú verið merktar með bláa fánanum (E.E.C) sem þýðir að þær uppfylla hæðstu gæðakröfur um strendur Evrópu. Þar á meðal má finna Punta Prima, la Playa de la mosca, Calas de Playa Flamenca, La Zenia, Cabo Roig og Campoamor. Allar hafa þær sinn sérstaka sjarma og er fólk fljótt að finna sína uppáhalds strönd. Smábátahöfn Cabo Roig og Campoamor eru vinsæll áningarstaður þeirra sem stunda siglingar, en aðstaða þar er til fyrirmyndar.

  • Matarmenningin við ströndina er ferskt sjávarfang og hinir geysivinsælu smáréttir „tapas“ sem svíkja engan, auk mikillar flóru veitingastaða frá nánast öllum heimshornum, sem gaman er að kíkja á.

Benidorm

  • Benidorm er einn af vinsælli ferðamannastöðum Spánar í Valensía héraði, staðsettur á austurströndinni á milli Valensía og Alicante borgar. Borgin var sofandi fiskiþorp fram til ársins 1960 þegar að sprenging varð í ferðamannaiðnaðinum á Spáni. Í dag byggist bærinn upp af hágæða hótelum og íbúðum, diskótekum, næturklúbbum og veitingastöðum.

  • Flestar verslanir og veitingahús eru í gamla bænum, en sá hluti Benidorm var áður virki sem var sprengt upp af breskum og spænskum hersveitum í stríði við Frakka árið 1812. Þröngar göturnar búa yfir miklum sjarma, og mynda einskonar völundarhús stræta, gatna og skota sem leyna fjöldann allan af áhugaverðum litlum búðum auk veitingahúsa og bara sem bjóða upp á gómsæta smárétti eða Tapas.

  • Benidorm er vinsæll meðal fjölskyldufólks sem og eldri borgara allan ársins hring, sem njóta veðurblíðunnar á vel hirtum ströndum auk fjölbreyttrar afþreyingu. T.d. má finna hinn vinsæla skemmtigarð „Terra Mítica“ í útjaðri borgarinnar, dýragarð, vatnsrennubrautagarðinn Aqualandia ofl.

Castalla

  • Castalla er fallegur bær staðsettur í grónu bæjarstæði, gerðu af náttúrunnar hendi í hinum gróðursæla bæ Foia de Castalla. Dalurinn er umkringdur fjöllum sem sum hver eru allt að 1000 metrar á hæð. Gönguferðir í fjallshlíðunum er vinsæl útivist, ekki síst vegna glæsilegs útsýnis hvert sem litið er. Bærinn Castalla liggur við fjallsrætur lágs fjalls, en á tindi þess trónir kastali með mikla sögu.

  • Staðsetning bæjarins er mjög góð með tilliti til samgangna, en þaðan er örstutt að komast á hraðbrautina til Madrid og Alicante borga. Jafnframt er flugvöllurinn í Alicante skammt frá. Næstu bæir við Castalla, í innan við 10 km fjarlægð, eru t.d. Onil. Tibi, Ibi og Biar, en gaman er að heimsækja þá og kynnast menningu og siðum þessara hlýlegu fjallaþorpa Alicante héraðs.

  • Dæmigerður „þjóðarréttur“ í Castalla er „Gaspatxo“ en hann inniheldur sérstaka tegund af brauði, kjúklingakjöt, kanínukjöt, sveppi, steikta tómata og lauk. Í Castalla er einstaklega góð aðstaða til að stunda hestamennsku, og fjölmargar fallegar reiðleiðir í næsta nágrenni.

Almoradí

  • Bærinn Almoradí er staðsettur á sléttlendi norðan Segura árinnar á suðurhluta Costa Blanca. Nafnið er komið úr arabísku og þýðir „Minn vilji og mín ósk“ eða „Mi voluntad y mi deseo“. Helsti atvinnuvegur er húsgagnaframleiðsla, en stór hluti hinna 21.000 íbúa bæjarins vinna við landbúnað og hina ýmsu þjónustu. Almoradí er í almennu tali kallaður „húsgagnabærinn“ því þar er mikinn fjölda húsgagnaverslana að finna.

  • Skemmtilegir útimarkaðir og heimilislegt landbúnaðarsafn eru í bænum. Þar er allt til alls, og stutt á ströndina og til stærri borga. Maður getur skotist í golf, skellt sér í gönguferð í náttúrunni eða brunað niður á strönd á örskömmum tíma. Almoradía er notalegur smábær þar sem þú nýtur þess að samlagast spænskri menningu og mannlífi.

Pilar de la Horadada

  • Pilar de la Horadada (Pilar) er bær sem staðsettur er 66 kílómetra suður af Alicante borg og sá syðsti í Valensíu héraði, aðeins einum kílómetra norðan við héraðsmörk Murcia.

  • Mörg stríð hafa verið háð í Pilar sökum staðsetningar bæjarins á sögulegum landamærum tveggja konungsdæma: Konungsdæmis Murcia (Castilla) og Konungsdæmis Valencia. Pilar samastóð af nokkrum bóndabæjum og fáeinum húsum, þekktum sem Campo de la Horadada á árum áður, eða á meðan að landbúnaður var aðal atvinnugreinin á svæðinu. Ferðamannaiðnaðurinn tók yfir þegar að bærinn fékk sjálfstæði frá Orihuela árið 1986 og miklar breytingar áttu sér stað.

  • Bærinn stendur við vogskorna strandlengju með fínum sandi og tærum sjó og ánna Rio Seco eða „Þurru ána“. Landið er mjög gott til ræktunar enda er grænmetisrækt mikil. Ilmandi kryddjurtir eins og Rósmarín og Timían vaxa villtar. Hvítar gresjur, runnar og sef einkenna náttúruna næst bænum en fyrir ofan bæinn tekur við gróið fjalllendi El Pinar de Campoaverde þar sem gaman er að fara í göngutúra og njóta útiveru.

  • Torre de la Horadada er varðturn sem var byggður til að fylgjast með sjóræningjaskipum. Margir slíkir varðturnar eru meðfram ströndinni. Umhverfis turninn reis þorp sem síðar varð að sumardvalastað fyrir íbúa Orihuela, Murcia og Vega Baja de la Segura.

  • Í Pilar er hægt að finna fornleifa og þjóðfræðisafn og virða fyrir sér steingervinga, myntir, gömul árásarvopn, búta úr íberískum vefnaðarvélum o.fl.

  • Þegar kemur að matargerðarlist má segja að ákveðnir eftirréttir séu það sem bærinn sé þekktur fyrir, En „Arroz con leche“ eða hrísgrjónabúðingur úr geitamjólk, hrísgrjónum, sítrónuberki og kanil stendur þar fremst meðal jafningja. En auk þess eru sætindi eins og „Cordiales“, „Toñas”, „Mantecados“ eða „Rollos de anis“ og „Milhojas“ mjög vinsæl.

San Miguel de Salinas

  • Hinn dæmigerði spænski bær San Miguel de Salinas er staðsettur á hæðsta punkti sveitar sinnar, Vega Baja de Segura. Í bænum sjálfum og úthverfum hans búa rúmlega 6.000 íbúar. Í kjarna bæjarins sem og í úthverfum hans blómstrar ferðamannaiðnaðurinn auk þess sem hverfi hans hafa verið vinsæll áningastaður fyrir fjölskyldufólk í leit að frístunda-, jafnt sem heilsársheimli.

  • Með útsýni yfir Miðjarðarhafið og strandlengjuna sem er í einungis 11 km fjarlægð frá þessum vinalega bæ, gerir bæinn ákjósanlegan jafnt til fastrar búsetu sem og styttri dvalar.

  • Helsti iðnaður bæjarbúa er þjónusta og landbúnaður, og má þar helst nefna sítrónurækt, melónu og ólífurækt en jafnframt hafa íbúar notið góðs af auknum störfum tengdum ferðamannaiðnaðinum við strendur Costa Blanca. Kirkja bæjarins er kennd við erkiengilinn San Miguel eða „heilagan Mikael“ sem jafnframt er tilnefndur verndari bæjarins. Dýrðlingadagur San Miguel er haldinn hátíðlegur ár hvert og hefjast hátíðarhöld jafnan viku fyrir dýrðlingadaginn sem er 29. september. Mikið er þá um dýrðir í bænum, skrúðganga, danssýningar og tónleikar svo eitthvað sé nefnt.

  • Matarmenning bæjarbúa einkennist af hinum hefðbundna næringarmikla sveitamat „gazpacho manchego“ sem er girnilegur réttur unnin úr tómötum, sérstöku brauði, og grænmeti ásamt kanínukjöti, hrísgrjónum og soði.

  • Í San Miguel er allt til alls, ráðhúsið trónir við aðalgötu bæjarins og heilsugæslan hinum megin götunnar. Barnaskólinn er einn sá besti á svæðinu, en í bænum er einnig framhaldsskóli sem er mjög eftirsóttur, tónlistarskóli og lúðrasveit. Í bænum er jafnframt einkarekinn alþjóðlegur skóli „El Limonar International“ þar sem boðið er upp á nám samhliða á ensku og spænsku. Öll þjónusta er við hendina í þessum sjarmerandi litla bæ.

San Pedro del Pinatar og Lo Pagán

  • San Pedro del Pinatar liggur við Mar Menor innhafið sem er svo til aðskilið frá Miðjarðarhafinu af La Manga rifinu. Bærin hér El Pinatar sem þýðir fura, því mikill furuskógur var í kringum hann. Á 18. öld var bærinn svo skírður í höfuðið á Pétri postula, þegar að fiskimenn úr bænum byggðu musteri honum til heiðurs og úr varð nafnið San Pedro del Pinatar. Rómverskar minjar hafa fundist í nágrenninu sem styðja þá kenningu að Rómverjar hafi búið þarna á svæðinu um tíma.

  • Bærinn sem var upprunalega sjávar- og landbúnaðarmiðstöð er í dag einn aðal áfangastaður ferðamanna við strandlengju Murcia. Aðdráttarafl staðarins er t.d. San Pedro ströndin þar sem má finna Lo Pagán, líflega miðstöð ferðamanna með allri mögulegri þjónustu s.s. hótelum, börum, veitingastöðum og verslunum. Góð aðstaða við smábátahöfnina og umhverfi Mar Menor býður jafnframt upp á fjölbreyttar vatnaíþróttir eins og t.d. siglingar, köfun og brimbrettabrun svo eitthvað sé nefnt.

  • Mar Menor er mjög saltað og leirinn í Lo Pagán er þekktur fyrir heilsubætandi eignleika. Við Mar Menor eru allskyns heilsulindir og böð sem eru vinsæl, bæði af innlendum og erlendum ferðamönnum sem þjást til dæmis af gigt, húðsjúkdómum eða öðrum kvillum. Ekki ósvipað Bláa Lóninu okkar á Íslandi, ef við drögum frá rigningu, rok og svimandi verðlag. San Perdo del Pinatar er upplagður staður til að láta sér líða vel.

Los Montesinos

  • Nafnið Los Montesinos kemur frá aðalsfjölskyldu sem eitt sinn réð yfir landsvæðinu í kringum þennan fallega bæ. Bæjarbúar eru u.þ.b. 5.000 og lifa þeir aðallega af landbúnaði. Í útjaðri bæjarins er mikil appelsínu- og sítrónurækt sem gefur umhverfinu fallegt yfirbragð og kryddar andrúmsloftið með ávaxtailmi

  • Í Los Montesinos er öll helsta þjónusta við hendina, svo sem verslanir, veitingastaðir, skóli, íþróttaaðstaða og heilsugæsla. Bærinn er vel staðsettur og stutt þaðan til flestra mikilvægra staða á Costa Blanca. Einungis er 15 mínútna keyrsla niður á strönd og 5 mínútur á golfvellina La Finca og La Marquesa.

  • Bærinn er dæmigert spænskt þorp, tilvalið fyrir fólk sem leitar að friði og ró á rómantískum stað.

Villamartin Golfvöllurinn

  • Villamartin golfvöllurinn er vel aðlagaður að náttúrulegu umhverfi landvæðisins og var hannaður af John Putman, og opnaður árið 1972. Völlurinn er ekki of langur en á móti kemur að hann er umkringdur trjám og runnum. Grínin eru ekki of lítil og brautirnar allar mjög ólíkar. Töluvert er af brekkum á vellinum og eru sumar hverjar ansi erfiðar, en það gerir spilamennskuna enn áhugaverðari og meira spennandi. Grínin taka vel við golfkúlunni án þess að vera of varasöm, en lesa þarf þau vel ef skorið á að vera gott. Erfiðleikastig vallarins liggur í því að forðast þverhnípi, gróður, tré og vatnshindranir við sumar holanna.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 72

La Finca Golfvöllurinn

  • La Finca golfvöllurinn er í einstaklega fallegu umhverfi með stórkostlegu útsýni yfir nærliggjandi sveitir. Völlurinn var hannaður með það að markmiði að hýsa stærstu golfkeppnir Evrópu og býður hann uppá fjölbreyttari stærðir á grínum en flestir aðrir vellir á Costa Blanca svæðinu, allt frá mjög stórum grínum niður í mjög lítil. Þetta er sannkallaður vatnavöllur þar sem rennandi lækir liggja meðfram brautunum og þvert yfir þær og mynda þannig vötn við grínin sem eru umlukin sefgrasi. Þetta gerir völlinn einstaklega fallegan og eykur jafnframt erfiðleikastig hans.

    • Völlurinn er 19 holur (18 + 1)

    • Par 72

Las Ramblas Golfvöllurinn

  • Las Ramblas golfvöllurinn er mjög áhugaverður fyrir golfara sem líkar að taka áhættur. Hann er hannaður af José Gancedo og var opnaður árið 1991. Völlurinn er 5.770 metra langur og liggur í fallega grónu umhverfi þar sem útsýnið er stórkostlegt hvert sem litið er. Landslag vallarins er mjög hæðótt, vegna lágs fjalllendis og því mikið um erfið högg sem krefjast mikillar nákvæmni hjá golfaranum. Erfiðleikastig vallarins ætti að gera leikinn mjög spennandi og áhugaverðan.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 72

La Marquesa Golfvöllurinn

  • La Marquesa golfvöllurinn er staðsettur í dal og skiptist í langar og stuttar brautir. Á vellinum er töluvert um læki og vötn sem auka á erfiðleikastig hans en gera hann jafnframt fallegri og skemmtilegri til að spila á. Þrátt fyrir vatnshindranir þá er völlurinn ekki mjög erfiður, svo allir golfarar ættu að geta notið sín. Erfiðleikastig vallarins felst aðallega í legu grínanna með erfiðum halla og brekkum.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 72

La Manga Golfvöllurinn

  • La Manga golfvöllurinn er þekktasti golfvöllur Murcia héraðs. Hann hefur verið hluti af forkeppni PGA mótaraðarinnar (qualifying) og Spanish Open. La Manga klúbburinn hefur þrjá mismunandi velli. Suður- og Norðurvellirnir voru hannaðir af Robert Puman en vesturvöllurinn af Dave Thomas. Suðurvöllurinn var síðan endurhannaður af Arnold Palmer árið 1992. Öll grín voru hönnuð eftir reglum USGA og fyrsti framkvæmdastjóri La Manga Club var Gary Player.

  • SUÐURVÖLLURINN er staðsettur í miðju dals og vekur athygli fyrir glæsileg pálmatré á hverri braut, ásamt vötnum sem birtast á 15 og 18 holum vallarins.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 73 og 6.499 metrar

  • NORÐURVÖLLURINN er svipaður suðurvellinum en hann er þó styttri.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 71 og 5.753 metrar

  • VESTURVÖLLURINN liggur við fjallsrætur dalsins og vegna legu brautanna er hann erfiðari í spilun en hinir tveir vellirnir. Margar gildrur eru á vellinum og krefst hann mikillar nákvæmni.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 73 og 5.971 metrar

Campoamor Golfvöllurinn

  • Campoamor golfvöllurinn er staðsettur í fallegum dal, umkringdur lágum hólum, ólífu- og ávaxtatrjám sem skýla vellinum vel fyrir vindi. Því er hægt að spila þar golf allt árið um kring við góðar aðstæður. Brautirnar eru frekar breiðar, en í þeim hefur náttúrulegt landslag svæðisins verið látið halda sér, sem gerir þær mjög skemmtilegar yfirferðar.

    • Völlurinn er 18 holur

    • Par 72

 

Hátíðarhöld

Spánverjar eru með eindæmum glaðvært og skemmtanafúst fólk.  Það kemur því ekki á óvart að hátíðarhöld eru haldin vikulega í borgum og bæjum landsins þar sem hvert bæjarfélag hefur sinn verndara og dýrðling.  Þessar veislur, eða „fiestas“  standa í eina til tvær vikur, þar sem bæir og borgir eru skreytt ljósum og dýrðin er mikil.  Tónlist, dans og hverskonar skemmtanir eru á hverju götuhorni þar sem lífsgleði, fegurð og virðing fyrir náunganum einkennir andrúmsloftið.  Þetta er upplifun sem að enginn ætti að láta fram hjá sér fara.  En auk þessara bæjarhátíða eru mörg önnur tilefni til að halda daginn hátíðlegan:

Spænsku jólin eru haldin hátíðleg að morgni 7. janúar, þann dag sem (talið er að) vitringarnir þrír hafi heimsótt Jesúbarnið með gjafirsínar.  Í ljósi þessa eru skrúðgöngur haldnar til heiðurs Jesúbarninu að kvöldi 5 janúar og fara vitringarnir (kallast konungarnir þrír á Spáni) fylktu liði á fagurlega skreyttum vögnum þaðan sem þeir deila út góðgæti og smágjöfum til barnanna.  Konungarnir þrír gefa svo hverju og einu barni eina gjöf sem að þau fá yfirleitt að morgni 6 janúar.  

Miðaldarhátíð er forn hátíð sem stendur oftast yfir eina helgi og leiðir okkur árhundruði aftur í tímann.  Sölutjöld eru reist víðsvegar og ýmiss heimagerður varningur er til sölu, s.s leikföng, sápur og listaverk.  Spákonur og spámenn eru á hverju strái og margar athyglisverðar uppákomur eiga sér stað á þessari febrúarhátíð sem gefur okkur innsýn inn í líf fyrri alda.

Feðradagurinn er haldinn hátíðlegur 19. mars, en sá dagur er nafnadagur San José, föður Jesúbarnsins.  Þessi dagur er ekki ólíkur feðradaginum eða bóndadeginum á Íslandi og jafnan dekrað við feður á þessum degi.

Páskahátíðin er þungamiðja allra hátíðahalda á Spáni og keppast bæir og borgir við að lofa dýrðlinga sína.  Íbúar fara fylktu liði um göturnar og lofa Jesú Krist, þjáningu hans og dauða.  Bæði dýr og menn taka þátt í sýningunni sem er oft stórglæsileg og líkneski eru borin um af þátttakendum, og andrúmsloftið er oftar en ekki mettað af óttablandinni lotningu. 

Mára og kristinna manna hátíðin er ein af líflegri hátíðum sem haldin er á Spáni, og þá sérstaklega í suður hluta Valensíu héraðs.  Hún fer yfirleitt fram í síðustu viku apríl mánaðar þar sem kristnir menn fagna sigri yfir Márum, og því þegar þeir náðu á sitt vald ákveðnum landsvæðum á Íberíuskaganum eftir blóðuga baráttu við múslimana sem tekið höfðu yfir landið.  Bæjarbúar skipta liði og klæðast sem kristnir menn eða Márar og endursegja söguna í götuleikhúsum, skrúðgöngum, með dansi og bardögum á götu úti við mikla ánægju áhorfanda.

Mæðradagurinn er haldinn hátíðlegur fyrsta sunnudag í maí og er hann eins og flestir þekkja tileinkaður mæðrum með tilheyrandi dekri við þær.

La Feria de Mayo eða Maí-hátíðin er ein af áhugaverðari hátíðum í Torrevieja þar sem að hafnarsvæði borgarinnar umbreytist í miðstöð gleði og skemmtunar.  Leikarar í hefðbundnum klæðnaði hérðasins leika á tilbúnu sviði, en þar sem almenningur klæðir sig jafnframt í búninga, og þá oftast Flamenco fatnað, er erfitt að greina á milli leikhúss og raunveruleika, sem skapar ævintýralegt andrúmsloft.  Hestasýningar, söngur og dansleikir eru haldnir um allan bæ, og borðað, drukkið og glaðst á götum úti.  Þessi hátíð hefst jafnan í lok apríl og endar fyrstu helgina í maí.

Sjómannadagurinn er haldinn hátíðlegur þann 16. júlí ár hvert, en verndari sjómanna er hin Heilaga Carmen.  Íbúar strandbæja halda upp á þennan dag, og oft eru siglingar í boði fyrir þá sem vilja.  Mikið er um dýrðir í Torrevieja á þessum degi, enda hefur borgin vaxið úr því að vera lítið fiskimannaþorp í nútímaborg og því margs að minnast og fagna.

„Asunción de la Virgen“ er dagur ljóss og vonar og er dýrðlingadagur Maríu Meyjar sem lét lífið af ást og hlaut eilíft líf í staðinn.  Dagurinn er haldinn hátíðlegur 15. ágúst hvert ár og er frídagur á landsvísu.  Þennan dag er sagt að einlægar óskir trúaðs fólks eigi að rætast og vandamál þess að leysast.  Þetta er sannkallaður dagur ljóss, kærleika og friðar.

Þjóðhátíðardagur Spánar er 12. október ár hvert, sem er sami dagur og Kólumbus „fann“ Ameríku.  Honum er að sjálfsögðu fagnað um allt land, en síðustu ár hefur þessi dagur orðið fyrir valinu af hópi sjálfstæðissinna t.d. í Katalóníu, sem flykkja liði til að vekja athygli á sjálfstæðisbaráttu sinni.

Dagur stjórnarskrárinnar er 6. desember, sem er frídagur í landinu til heiðurs því að stjórnarskrá Spánverja var undirrituð þennan dag árið 1978.  Þessi dagur markar kaflaskipti í stjórn landsins, og fyrstu skref í lýðræðislegu landi.

Mára og kristinna manna hátíðin er ein af líflegri hátíðum sem haldin er á Spáni, og þá sérstaklega í suður hluta Valensíu héraðs.  Hún fer yfirleitt fram í síðustu viku apríl mánaðar þar sem kristnir menn fagna sigri yfir Márum, og því þegar þeir náðu á sitt vald ákveðnum landsvæðum á Íberíuskaganum eftir blóðuga baráttu við múslimana sem tekið höfðu yfir landið.  Bæjarbúar skipta liði og klæðast sem kristnir menn eða Márar og endursegja söguna í götuleikhúsum, skrúðgöngum, með dansi og bardögum á götu úti við mikla ánægju áhorfanda.

Markaðir

Vikulegir markaðir eru haldnir víðs vegar um Spán alla daga vikunnar.  Þar er að finna ferska ávexti og grænmeti beint frá bónda, blómasala, ýmsa matvöru, fatnað, veitingar og fleira.  Athugaðu hvort að það er markaður nálægt þér, en hér á eftir má sjá hvaða dag er að finna markað í hverjum bæ:

  • Mánudaga: Elche
  • Þriðjudaga: Orihuela, San Fulgencio, Castalla
  • Miðvikudaga: San Miguel de Salinas, Benidorm, Guardamar del Segura
  • Fimmtudaga: Alicante, Rojales
  • Föstudaga: Torrevieja, Pilar de la Horadada, Los Montesinos
  • Laugardaga: Almoradí, Santa Pola, Catral
  • Sunnudaga: Pilar de la Horadada, Benidorm
Estoy de acuerdo

Utilizamos cookies propias y de terceros para realizar análisis de uso y de medición de nuestra web para mejorar nuestros servicios. Si continua navegando, consideramos que acepta su uso. Para obtener más información haga click aquí.